Kjúklingasúpa

Sonur minn fullyrti að hann hefði borðað soðna gulrót og þótt það gott. Ég tók hann á orðinu og sagðist myndu útbúa kjúklingasúpu með gulrótum í. Hann vildi ekki restina af grænmetinu sem fór í súpuna, svo ég sauð allt grænmetið nema gulræturnar í soðvatninu í um 10 mín eða svo, þá síaði ég það og hellti soðinu aftur í pottinn. Þá bætti ég við gulrótunum og restinni af innihaldinu. Þegar súpan var til tók ég nokkrar ausur og setti í sérskál fyrir hann. Þá hellti ég gumsinu sem ég hafði síað frá áður út í pottinn og við systur átum súpuna með öllu gumsinu. Þetta var dálítið bras, ég viðurkenni það, en vel þess virði. Guttinn bragðaði á gulrót (fannst hún reyndar vond þegar upp var staðið) og allir voru sáttir. Hér er uppskriftin:

 1l vatn
 grænmetis eða kjúklingateningur, eða annar kraftur
 1 sellerístöngull
 1-3 hvítlauksgeirar/hálfur heill hvítlaukur (fæst í litlum körfum í matvörubúðum, aðeins sætari en       hinn venjulegi)
 1/2 blaðlaukur (eða annar laukur)
 4-5 sveppir
 grænmetisteningur eða annar kraftur
 4 gulrætur

Grænmetið skorið og þetta er látið malla í einhvern tíma, allavega 10 mín ef ekki meira. 

 4 kjúklingabringur

Kjúklingurinn skorinn niður og steiktur á pönnu. Svo settur út í súpuna.

 2 msk hveiti
 2 msk smjör

Smjör brætt í potti og hveitinu hrært saman við. Hrært svo saman við soðið.

 1/2 l mjólk (má jafnvel setja meira, súpan var frekar þykk)
 1/2l rjómi/matreiðslurjómi
 Tandoori
 svartur pipar
 sletta af sweet chilli sósu (eftir smekk)
 sletta af soya sósu (má sleppa, þetta er alveg nógu salt fyrir)
 lítil dós tómatpúrra
 núðlur t.d. Rice noodles (brotnar niður fremur smátt) nú eða eitthvað pasta bara

Restinni bætt út, magn fer eftir smekk, smakkið ykkur bara áfram.

Upplagt að snæða svona súpur með góðum bollum, nú eða eins og ég gerði; brauðsneiðar með miklu smjöri og jurtasalti hent í grillið í ofninum...sjúklega gott, látið ÞYKKT lag af smjöri og stráið svo Herbamare yfir, leyfið því að grillast vel í ofninum. 

Ég hugsa að það gæti verið gott að sleppa rjómanum og setja í staðinn kókosmjólk. Svo mætti sleppa núðlunum og frekar setja kartöflur eða sætar kartöflur með í súpuna. Einnig væri gott að kaupa svona hakkaða tómata og nota með og hafa þetta meira svona tómatsúpu, sleppa því að baka upp súpuna með hveiti og smjöri. Svona er hægt að leika sér áfram með sama grunninn. Vona að einhverjir njóti góðs af þessari uppskrift, verði ykkur að góðu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mmmmmm.... þessi hljómar vel, verð að prófa hana :)

Magga (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 21:00

2 identicon

Mmmmm... hljómar afskaplega vel:D

Maja (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband