Grænmeti með karrý og gráðaosti

Ég hef ekki komið með færslu hingað inn í að verða 3 ár. Ástæðan er sú að ég gafst upp á þessu kerfi, en mér tókst aldrei að vista færslurnar mínar. Ástæðan er mér ókunn, ég gerði allt á sama hátt og ég hafði gert áður. Kerfisvilla hlýtur þetta að hafa verið og því ætla ég að reyna að setja inn uppskriftir á nýjan leik. 

Í þetta skiptið ætla ég að gefa ykkur uppskrift að sjúklega góðu meðlæti, sem ég tel að passi með mjög mörgu. Ég hafði þetta með kjúkling og hrísgrjónum, en ég sé þetta líka fyrir mér með fiski og jafnvel rauðu kjöti. Þetta gæti mín vegna verið máltíð með hrísgrjónum, byggi, kúskús eða kínóa og ef til vill góðu salati. Varúð, þetta er ekki það hollasta!

Grænmeti með karrý og gráðaosti:

Sveppir

paprika

blaðlaukur

gulrætur

spergilkál/broccoli

karrý, salt og pipar (ég nota oftast Herbamare jurtasalt í rétti eins og þennan)

smá biti af gráðaosti, ca. 1 tsk, má að sjálfsögðu sleppa eða setja meira

mikið smjör  (fer eftir magni grænmetisins, en grænmetið á nánast að fara í kaf í smjörið)

Smjör sett í pott og látið hitna við miðlungshita, kannski aðeins meira rétt fyrst og lækka svo þegar allt er farið að krauma.  Grænmetinu hent út í og látið malla í nokkrar mín (2-5). Kryddað með salti/Herbamare, svörtum pipar og karrý. Að lokum er gráðaosturinn mulinn út í (ég notaði bara puttana) og þegar hann er bráðinn, er hægt að gæða sér á þessu. Að sjálfsögðu er hægt að skipta út, taka út eða bæta við hráefni. Ég sé fyrir mér hvítlauk, lauk, sætar kartöflur, blómkál, baunir....endalausar samsetningar. 

Ég er svo sem ekki að finna upp neitt með þessum rétti, en einfaldur og góður er hann. Ég skal setja inn heila máltíð í næstu færslu.

Verði ykkur að góðu og njótið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Jónsdóttir

Og já, afsakið skortinn á magninu, ég hugsa að það sé fínt að miða við lúku af hverju hráefni. Ég hugsa að það dugi a.m.k. 2 fullorðnum.

Halla Jónsdóttir, 9.2.2013 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband