Færsluflokkur: Matur og drykkur

Pizzustangir, tómatar í ofni og grænmetisgums

Hér koma 3 uppskriftir sem voru að líta dagsins ljós. Gjörið þið svo vel!

 

Pizzustangir

 

2 bollar hveiti

2 bollar heilhveiti

1 pk. ger (ca. 11g eða 3 tsk)

2 bollar ylvolgt vatn

4 msk olía

2 tsk salt

ca. 3 msk. ítalskt krydd (grænar kryddjurtir)

ca. 1 msk. hvítlaukspipar

1-2 msk. pizzusósa (má sleppa eða vera meira)

rifinn ostur (ca. 100g eða eftir smekk)

4 sneiðar skinka

 

Allt blandað saman nema ostur og skinka, fyrst þurrefni svo blauta. Látið lyfta sér í a.m.k. 20-30 mínútur, eða þar til deigið hefur lyft sér um helming (almennur hefunartími gerdeigs er reyndar um 45-60 mínútur og betra að láta lyfta sér lengur en skemur). Ég hef ofninn stilltan á 100°C og hef smá rifu og læt skálina vera þar fyrir ofan. Margir setja sjóðandi heitt vatn í vaskinn og láta skálina standa í vatnsbaðinu, það er mjög fljótleg aðferð við að hefa. Aðalatriðið er bara að láta skálina standa á hlýjum stað.

 

Þegar deigið hefur lyft sér er það hnoðað aftur, kannski þarf aðeins meira hveiti. Eldfast mót er smurt og helmingurinn af deiginu er flattur út í mótið. þá er ostinum og skinkunni dreift yfir og svo hinn helmingurinn af deiginu flattur yfir. Þá er skorið í efri hluta deigsins, þversum eins og gert er við hálfmána á veitingastöðum. Þetta er bakað í ca. 30 mínútur, eða þar til skorpan er orðin gullinbrún og brauðið er bakað í gegn.

 

Ofnbakaðir tómatar í rjómaosti

 

Rjómaostur smurður í botn á eldföstu móti, tómatsneiðar lagðar ofan á og að lokum ólívur, t.d. grænar með paprikufyllingu. Salt og pipar yfir. Sett í ofn stilltan á grill (225-250°C) og bakað í um 10-15 mínútur eða þar til ólívur og tómatar hafa fengið smá grilláferð.

 

Þessu má hella yfir pasta, hrísgrjón, eða hvað sem manni dettur í hug. Gæti t.d. verið gott með ítölskum kjötbollum eða ofan á gott brauð.

 

Grænmeti með mango chutney

 

sætar kartöflur

tómatar

blaðlaukur

paprika

maís

 

olía

1 msk mango chutney

soya sósa

ítalskt krydd

pipar

salt

 

Blautmetinu og kryddinu hrært vel saman. Allt eftir smekk, þ.e. magnið. Þessu er svo hellt yfir niðurskorið grænmetið í eldföstu móti og eldað við 200°C í ca. 30 mínútur, eða þar til sætu kartöflurnar eru orðnar soðnar í gegn. Það er líka mjög gott að nota pestó í stað mango chutney.

 

Þetta borðuðum við Linda systir með ítölskum kjötbollum og núðlum (átti ekki spaghettí) og þetta bragðaðist ansi vel.

 

 


Fiskur í ofni með ostasósu

Þessi uppskrift dugar handa 3-4 fullorðnum og bragðaðist mjög vel. Gjörið þið svo vel! Smile

 

Fiskur í ofni með ostasósu 

2 flök fiskur (eða 4 minni bitar)

blaðlaukur

epli

paprika

tómatar

furuhnetur

kókosflögur

2 bollar hrísgrjón eða 1 poki (ég notaði blöndu af villihrísgrjónum, rauðum hrísgrjónum og hýðishrísgrjónum frá Rapunzel að mig minnir)

Krydd sem notuð voru á fiskinn: Fiskikrydd frá Gevalia og hvítlaukspipar 

Sósa:

1 askja rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum

1/2 askja hreinn rjómaostur (stærri askjan)

mjólk 1/4-1/2 líter, ekki meira en 1/2, má líka nota rjóma

Krydd í sósu: Fiskikrydd, hvítlaukspipar og karrý 

Aðferð: Hrísgrjón soðin. Fiskur skorinn í bita og kryddaður. Yfir hann er sett restin af innihaldinu. Því næst hrísgrjónin þegar þau eru soðin og að lokum hellist sósan yfir allt saman og ostur settur yfir og inn í ofn í ca. 30 mínútur. 

 Ath: Sum hrísgrjón hafa mjög langan suðutíma, því er best að athuga það áður en hafist er handa við hitt. 


Tómatmakkarónur

Gleðileg jól og gleðilegt nýtt ár!!

Þennan rétt gerði ég fyrir jólasaumaklúbbinn við nokkuð góðar undirtektir.

 

Hráefni:

Makkarónur, ca. 300 400g miðað við ósoðnar

1/2 -1 pakki skinka (svona bunkapakki)

1/2 - 1 dós niðursoðnir tómatar (stewed tomatoes frá Hunt's)

1 lítil dós gulrætur (svona niðursoðnar baby-gulrætur, en endilega notið frekar ferskar ef þið hafið tíma)

ca. 2-3 dl soðnar kjúklingabaunir

1 lítill eða hálfur stór rauðlaukur

1/4 líter grænmetissoð (teningar frá Knorr)

ca. 2 dl rjómi

ca. 2 dl mjólk

ca. 2-3 dl tómatsósa

svartur pipar

Chicken Herb Seasoning with garlic and herbs (hvítlauk og jurtum) frá McCormick  

 

Aðferð: Makkarónur soðnar. Allt hitt steikt á pönnu, byrjað á lauknum, skinkunni og tómötunum síðan baunirnar og gulræturnar. Soðnum makkarónum blandað saman við sósuna og sett í eldfast mót. Rifinn ostur yfir og hitað í ofni við 200°C í ca. 15-20 mínútur, eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn. Einnig má borða þetta beint af pönnunni með einhverju meðlæti, brauði, salati eða hverju sem hugurinn girnist. Einnig er eflaust mjög gott að nota hrísgrjón í stað makkaróna. Verði ykkur að góðu! 

jólahallan

 

  

 


Heitur réttur með skinku

Þessi réttur sló í gegn hjá mér einhverja helgina sem ég bauð gestum í kaffi. Að þessu sinni voru það Kristín María, Pétur og Iðunn sem voru smakkarar...að mig minnir...

 

Hráefni:

½ paprika

sæt kartafla (lítil)

½ epli

blaðlaukur eftir smekk

sveppir eftir smekk

1 pakki skinka/kjúklingaskinka

1 dós maísbaunir (lítil)

½ dós skinkumyrja

1 dós sýrður rjómi (18%)

Krydd: Karrý, töfrakrydd frá Pottagöldrum, sletta af balsamediki og sætu sinnepi

1-2 pokar hrísgrjón

Rifinn ostur eftir smekk

Ristað brauð 

 

Aðferð:

Byrjað á að koma hrísgrjónunum í suðu. Því næst er sæt kartafla, paprika, epli, sveppir og blaðlaukur steikt á pönnu upp úr smjörva eða olíu. Skinku og maísbaunum bætt út í og einnig ostinum og sýrða rjómanum. Kryddað og svo er gumsinu hrært saman við hrísgrjónin og sett í eldfast mót. Rifnum osti stráð yfir og hitað í ofni við 200°C þar til ostur er gullinbrúnn. Borið fram með ristuðu brauði

Bon appetite!! Tounge

 


Tómatkjúklingur í ofni

Þessi réttur heppnaðist mjög vel og er nokkuð einfaldur í framkvæmd. Leyndarmálið er fengið frá Hunt's en frá þeim er hægt að kaupa heilmikið af gómsætum tómatvörum. Að þessu sinni valdi ég "Hunt's Diced with green pepper, celery & onion" en það er í niðursuðudós (14.5 oz/411 g)

 

Hráefni:

2 kjúklingabringur

1 dós Hunt's Diced (tómatteningar) með grænni papriku, sellerí og lauk

1 lítil dós kókosmjólk (165 ml)

1/2 gul paprika

2 ananassneiðar (eða 1/2 epli/mangó)

2 msk rjómaostur (hreinn)

2 msk sweet chilli sósa

2 tsk balsamedik

3 msk olía (í þetta skiptið notaði ég Isio 4, en extra virgin ólívuolía hentar líka mjög vel)

basilikum eftir smekk, eða einhver önnur kryddjurt (ég notaði frostþurrkað, en auðvitað er ferskt alltaf best)

1 poki hrísgrjón (Notaði Tilda Basmati & Wild, fæst ekki í pokum en magn sem samsvarar því sem er í pokunum er passlegt, gleymdi að vigta)

Rifinn ostur 

 

Aðferð:

Kjúklingabringur eru skornar niður í bita (gúllas-stærð). Olía, sweet chilli, balsamedik og basilikum hrært saman og hellt yfir kjúklinginn og látið marinerast í einhvern tíma (a.m.k. hálftími, en nokkrir klukkutímar í ísskáp er enn betra, þá nær kryddið að síast betur í kjúklinginn). Hrísgrjónin eru sett í pott með sjóðandi vatni og smávegis salti. Þau eiga að sjóða í 20 mínútur (pokahrísgrjón þurfa bara 15) Kjúklingurinn er steiktur á pönnu. Þegar bitarnir eru steiktir í gegn er bætt við papriku og ananas og látið steikjast. Gott er að hafa lok á pönnunni, svo að allur safi gufi ekki upp. Tómatdósinni og kókosmjólkinni er hellt yfir. Látið krauma í nokkrar mínútur og að lokum er rjómaosturinn látinn bráðna út í. Hrísgrjónunum er blandað saman við og þetta er síðan allt saman sett í eldfast mót og rifinn ostur yfir. Hitað í ofni við 200°C þar til ostur er orðinn gullinbrúnn.

Borið fram með fersku salati. 


Eplabaka Höllu

Eplabaka

Þessari böku fann ég upp á sjálf og er ansi stolt, þar sem mín sterka hlið er matseld frekar en bakstur. Ég notaði spelt og hrásykur, en það má alveg eins nota hveiti og hvítan sykur í staðinn. Vindum okkur þá í baksturinn. Tounge

 

Botn:

50 g lint smjör

2 bollar hrásykur

2 bollar spelt

1 ½ bolli haframjöl

½ bolli kókosmjöl

½ bolli súkkulaðispænir

1 tsk. lyftiduft

½ bolli vatn

 

Fylling:

1 epli, kanill, púðursykur, kókosmjöl, hunang

 

Aðferð:

Hráefni botnsins er sett saman í skál og hnoðað með fingrunum. Það er svo sett í eldfast mót, alveg upp að börmum mótsins. Pressað vel í mótið. Því næst er eplasneiðum raðað ofan á, smávegis hunang yfir (fljótandi), kanil, púðursykri og kókosmjöli er svo stráð yfir. Þeim hluta deigsins sem stendur upp úr fyllingunni er ýtt niður þannig að það fari að hluta til yfir fyllinguna. Þetta er sett í ofn við 200°C, aðeins fyrir neðan miðju og í u.þ.b. 30 mín (tíminn getur verið mismunandi eftir ofnum, það verður því að fylgjast með). Borið fram með þeyttum rjóma, eða ís.

ATH: Ég notaði bolla sem rúmar 150 ml af vatni, ef hann er kúffullur. Annars skiptir mestu að það sé sami bollinn sem er notaður. Eldfasta mótið sem ég notaði fyrir þessa uppskrift er frekar lítið, það passar fínt fyrir svona 3-4

 

Bon appetite!! 


Fyrsta uppskriftin!

Ég hef ákveðið að byrja á túnfisksalatinu mínu víðfræga, en það má útfæra á marga vegu. Það sem ég kýs að setja í það hverju sinni, fer oft eftir innihaldi ísskápsins. Ég er reyndar hrikaleg með að segja fyrir um nákvæmar mælieiningar, því ég sletti bara einhverju gumsi í skál...en ég giska bara. Smile

Túnfisksalat að hætti Höllu: 

2 msk majones

1 msk sýrður rjómi (það má líka nota súrmjólk/ab-mjólk)

1 dós túnfiskur í vatni

1-2 tsk pestó (að eigin vali, oftast nota ég rautt frá Filippo Berio)

2-3 tsk sætt sinnep (má líka nota hunangs sinnep, en það er samt sterkara)

2-3 harðsoðin egg

1/4-1/3 blaðlaukur (fer eftir smekk og stærð, það má líka nota hvaða lauk sem er, en mér finnst blaðlaukurinn bestur)

1/5-1/4 gúrka

1/2-1 paprika (litur að eigin vali, en mér finnst gul og appelsínugul best)

1/4 dós ananas/ananaskurl (mér finnst betra að kaupa sneiðar og skera sjálf niður, ég þerra þær með pappír áður en ég sker þær, ef notað er kurlið verður salatið þynnra)

Krydd að eigin vali (t.d. kryddin frá Pottagöldrum, ég nota mest kryddin "best á allt" og "töfrakrydd", svo er klassískt að skella "Season All" í salatið, svörtum pipar, "Aromat" (reyndar er msg í því, en það er bara svo gott) og paprikukryddi. Ég set jafnvel smá karrý og basilikum. Reyndar má nota hvað sem er, leyfið ímyndaraflinu bara að njóta sín) 

Tips: Best að hræra majonesið aðeins áður en annað er sett út í. Eggin eru harðsoðin eftir svona 8 mínútur (jafnvel fyrr, en ég hef þau alltaf í a.m.k. 8 mínútur, eitthvað sem ég held að mamma hafi kennt mér í denn...) Svo finnst mér best að krydda áður en grænmetið fer út í, þ.e. þegar einungis majó, sýrður og túnfiskur er kominn í skálina. Ég enda á eggjunum, en græja hitt á meðan eggin sjóða.  

ATH. Í stað ananass set ég gjarnan epli eða vínber. Einnig hef ég sett piparost í salatið og það kom mjög vel út. Hin ýmsu fræ er líka góð, t.d. sólblómafræ og graskersfræ. Lykillinn að góðu túnfisksalati er sá að setja það sem manni finnst gott út í. Wink

Njótið!! 

 

 


Leyndarmál ungu húsmóðurinnar

Góðan dag gott fólk! Hér hef ég ákveðið að setja inn uppskriftir frá mér sjálfri, en ég hef afskaplega gaman af að elda og brasa í eldhúsinu. Ég hef enga menntun á sviði matreiðslu, en hef þetta sennilega í blóðinu, því móðir mín er einstaklega lagin í eldhúsinu. Einu sinni í viku mun ég setja inn nýja uppskrift og vona ég að einhverjir njóti góðs af. Gjörið svo vel! Grin


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband