Færsluflokkur: Matur og drykkur
1.9.2018 | 00:16
Salat með baunablöndu og sultuðum rauðlauk
Ég er mætt aftur og reynslunni ríkari. Eftir að hafa lesið yfir 8-10 ára færslur hef ég komist að því að ég hef breytt töluvert matseldinni hjá mér og tel ég að færni mín hafi aukist í eldhúsinu frá því að ég hóf bloggfærslur hér. Ég leitast eftir að gera sem mest frá grunni, þó ég grípi nú líka oft í tilbúnar matvörur. Þetta veltur allt á tímanum sem er í boði.
Um daginn mætti ég með salat í "baby shower" systur minnar. Viðstaddar voru afar hrifnar af salatinu og því ákvað ég að skrifa niður innihaldsefnin, svo alþjóð gæti fengið að njóta þessa salats. Þetta dugði sem smáréttur ásamt öðrum veitingum fyrir vinkonuhóp systur minnar (10-15 manns), en ef á að hafa þetta í matinn ætti þetta að duga fyrir 4-6, jafnvel fleiri, allt eftir því hvað er með.
Hér fékk ég mér svona salat með nachos.
Með salatinu bakaði ég brauð eftir þessari uppskrift. Ég breytti henni þannig að ég setti heilhveiti á móti brauðhveiti, af 850 g hafði ég um 300-350 g heilhveiti og rest brauðhveiti (þetta í bláu pokunum frá Kornax). Auk þess bætti ég við 2 msk af sósu frá Felix sem er með sólþurrkuðum tómötum (mál líka nota pizzasósu), fimmkornablöndu, graskersfræum, sesamfræjum, sólblómafræjum og kryddjurtablöndu sem heitir Herbs de Provence. Venjulega geri ég hálfa uppskrift af þessu brauði, sem gerir einn hleif. Einnig er hægt að gera bollur úr þessari brauðuppskrift.
Það er mjög girnilegt að skera rendur í brauðið, í sína hvora áttina, svo myndist eins konar netmynstur. Svo má pensla olíu og strá fræjum og grófu salti yfir. Gott að smyrja með smjöri, pestói eða smurosti
Salat með bauna-/grjónablöndu og sultuðum rauðlauk
1 bakki salatblanda (mátti vera meira, farið eftir smekk bara)
1 paprika, fínt skorin
1-2 gulrætur, rifnar
Kókosflögur eftir smekk, ristaðar á þurri pönnu
2 skammtar bauna- fræja- og hrísgrjónablanda frá Paulúns (1 og hálfur dl ósoðin blanda - eldunarleiðbeiningar eru á pokanum). Einnig má nota hvers kyns baunir og/eða grjón (hrísgrjón, bygg, kínóa o.s.frv.), allt eftir smekk. En þessi blanda er dásemd!
Aðferð: Byrjað er á að sjóða bauna-/grjónablönduna, það þarf að sjóða í 20 mínútur og svo kólna. Því næst er rauðlaukurinn græjaður og kókosflögurnar ristaðar. Hitt má bara græja á meðan beðið er eftir þessu sem þarf að elda.
Sultaður rauðlaukur:
1 rauðlaukur
2 msk jurtaolía (t.d. Isio 4)
1 msk kaldpressuð repjuolía frá Sandhóli (eða önnur extra virgin olía)
1/2 - 1 msk agavesýróp (eða önnur sæta, t.d. hunang/púðursykur)
1 msk hvítvínsedik (má líka vera rauðvíns- eða eplaedik)
Salt og pipar
Aðferð: Rauðlaukur skorinn í mjög fínar lengjur og settur í skál. Allt hitt sett út á og svo á miðlungsheita pönnu. Látið malla í einhverjar mínútur, þar til vökvinn hefur gufað svolítið upp og laukurinn er orðinn vel mjúkur og bleikur á litinn. Ath. Ef þið viljið gera rauðlaukssultu, notið þið bara litla olíu og meiri sykur og látið malla enn lengur á pönnunni, eða þar til lögurinn verður klístraður.
Olíudressing:
Jurtaolía
Kaldpressuð olía (extra virgin)
Kryddjurtablanda (t.d. Herbs de Provence)
Herbamare (eða bara salt)
Svartur pipar
Borið fram með góðu brauði, með nachos-flögum, með fisknum/steikinni/kjúklingnum, inn í tortilla kökur/tacos, eða bara eitt og sér.
Hugmyndir að viðbót í salatið:
ostabitar, næringarger (nutritional yeast), avocado, sólþurrkaðir tómatar, döðlur, ólívur, hnetur, kjúklingur, túnfiskur, harðsoðin egg, eggjahræra, skinka, o.s.frv.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2013 | 00:59
Hnetu- og möndlukonfekt
Ég ákvað að gera smá tilraun í eldhúsinu í dag. Mig langaði að útbúa eitthvað sætt og gott í eftirrétt, því systur mínar voru að koma í mat. Þessi tilraun heppnaðist með eindæmum vel og verður þetta reglulega á boðstólum hér á heimilinu, héðan í frá. Þetta konfekt inniheldur örugglega slatta af hitaeiningum, en líka næringu. Tveir svona molar eru fullkomnir með kaffibollanum og ætti þá sykurþörfin að hverfa (a.m.k. í bili). Þetta er ekki mikið magn, en afraksturinn er eitt lítið box í frystinum, passlegt til að eiga smá nart í frystinum.
Ég myndi nú a.m.k. tvöfalda uppskriftina fyrir saumaklúbbinn.
Innihald:
50 g möndlur, með hýði
50 g cashew/kasjúhnetur, saltar eða ósaltar, þið ráðið (ég notaði saltar frá Euroshopper)
50 g suðusúkkulaði
50 g kókosolía (hægt að fá bæði í krukku og líka í svona stykkjum í mjólkurkælinum)
1/2 dl rjómi (ef þið viljið ekki rjóma hlýtur að mega nota annan vökva í staðinn, en rjómi er alveg hollur í hóflegu magni og svo er þetta líka nammi, ekki máltíð)
1 tsk vanillusykur, með vanillukornum, eða skafið innan úr einni vanillustöng
1 dl hafrar, fínir eða grófir (ég notaði fína, en mun sennilega prófa að nota grófa, þ.e. heila hafra seinna)
1 dl kókosmjöl
Aðferð:
Kókosolían er tekin úr kæli töluvert áður en hafist er handa. Ef þið eruð í tímaþröng má líka bræða hana, en ég hafði hana bara mjúka. Súkkulaði er brætt við miðlungshita í rjómanum. Athugið að það þarf mikið eftirlit svo þetta brenni ekki, hrærið því reglulega í þessu og takið af hellunni, þegar súkkulaðið er byrjað að bráðna vel. Það bráðnar svo að fullu í heitum rjómanum, eftir að potturinn hefur verið tekinn af hellunni. Allt hráefnið, nema hafrar og kókosmjöl er sett í blandara, matvinnsluvél eða maukað með töfrasprota. Ég notaði töfrasprota og það maukaðist mjög vel. Þegar allt er vel maukað, er höfrunum og kókosmjölinu hrært saman við. Þessu er svo klesst ofan í plastdall eða lítið eldfast mót og sett í frystinn. Gott er að klæða mótið með klessuplasti/plastfilmu, þá er auðveldara að ná þessu úr. Þegar þetta er orðið hart (verður hart eftir ca. 30 mín eða klukkutíma, ekki alveg viss) er hægt að skera þetta í litla munnbita og setja í lokað box og geyma áfram í frystinum, eða bera fram.
Dásamlegt alveg hreint, verði ykkur að góðu!
9.2.2013 | 15:53
Grænmeti með karrý og gráðaosti
Ég hef ekki komið með færslu hingað inn í að verða 3 ár. Ástæðan er sú að ég gafst upp á þessu kerfi, en mér tókst aldrei að vista færslurnar mínar. Ástæðan er mér ókunn, ég gerði allt á sama hátt og ég hafði gert áður. Kerfisvilla hlýtur þetta að hafa verið og því ætla ég að reyna að setja inn uppskriftir á nýjan leik.
Í þetta skiptið ætla ég að gefa ykkur uppskrift að sjúklega góðu meðlæti, sem ég tel að passi með mjög mörgu. Ég hafði þetta með kjúkling og hrísgrjónum, en ég sé þetta líka fyrir mér með fiski og jafnvel rauðu kjöti. Þetta gæti mín vegna verið máltíð með hrísgrjónum, byggi, kúskús eða kínóa og ef til vill góðu salati. Varúð, þetta er ekki það hollasta!
Grænmeti með karrý og gráðaosti:
Sveppir
paprika
blaðlaukur
gulrætur
spergilkál/broccoli
karrý, salt og pipar (ég nota oftast Herbamare jurtasalt í rétti eins og þennan)
smá biti af gráðaosti, ca. 1 tsk, má að sjálfsögðu sleppa eða setja meira
mikið smjör (fer eftir magni grænmetisins, en grænmetið á nánast að fara í kaf í smjörið)
Smjör sett í pott og látið hitna við miðlungshita, kannski aðeins meira rétt fyrst og lækka svo þegar allt er farið að krauma. Grænmetinu hent út í og látið malla í nokkrar mín (2-5). Kryddað með salti/Herbamare, svörtum pipar og karrý. Að lokum er gráðaosturinn mulinn út í (ég notaði bara puttana) og þegar hann er bráðinn, er hægt að gæða sér á þessu. Að sjálfsögðu er hægt að skipta út, taka út eða bæta við hráefni. Ég sé fyrir mér hvítlauk, lauk, sætar kartöflur, blómkál, baunir....endalausar samsetningar.
Ég er svo sem ekki að finna upp neitt með þessum rétti, en einfaldur og góður er hann. Ég skal setja inn heila máltíð í næstu færslu.
Verði ykkur að góðu og njótið.
24.4.2010 | 17:38
Túnfiskhræra
Ég var beðin um túnfiskhræru hér í athugasemdum og ætla að verða við þeirri beiðni. Mér finnst voða gott að útbúa túnfiskhræru, þ.e. eggjahræru með túnfiski í. Það er reyndar dálítið síðan ég hef gert þannig, en ég ætla að giska á innihaldið.
1 dós túnfiskur
2-3 egg
2-3 msk soya sósa
4-5 sveppir
1/2 paprika
ca. 5 cm blaðlaukur eða 1/4 - 1/2 venjulegur eða rauðlaukur
3-5 tsk svartur pipar
2-3 tsk tandoori krydd (má sleppa...en mér finnst það bara gera svakalega gott bragð)
3-4 tsk basilikum (eða annað grænt krydd, oregano, timían, rósmarín o.s.frv.)
Aðferð:
Paprika steikt á pönnu við miðlungs hita með smá olíu eða smjöri (ef smjör er notað þarf etv. að lækka aðeins hitann, það brennur auðveldlega), paprikan tekur lengsta tímann svo hún má malla aðeins á pönnunni, ca. 5 mín áður en restin af grænmetinu er sett út á. Eggjunum, túnfisknum, soya og kryddi blandað saman í skál. Má þynna með mjólk eða rjóma ef vill eða bæta við fleiri eggjum. Þegar grænmetið er steikt er gumsinu hellt út á pönnuna. Látið steikjast aðeins að neðan (sem sagt það sem er við pönnubotninn) og svo er bara hært í þessu þar til eggin eru orðin gullin að lit og hætt að vera slepjuleg. Snætt með ristuðu brauði eða hrært saman við núðlur.
Það má leika sér með innihald í svona eggjahrærur. T.d mætti nota skinku eða kjúkling í stað túnfisksins, jafnvel rækjur eða baunir. Einnig má bara nota það grænmeti sem til er í ísskápnum, maður bara byrjar á harðasta grænmetinu (paprika, sætar kartöflur, kartöflur o.s.frv.) og endar á því sem þarf rétt að snöggsteikja eins og t.d. blaðlauk og graslauk og niðursoðið hráefni eins og maís, einnig ef verið er að nota eldaða afganga. Sveppir, kúrbítur, eggaldin og laukur þarf svipaðan tíma myndi ég áætla. Annars er svo misjafnt hvað fólki finnst gott, t.d. finnst mér allt í lagi þó paprikan sé ekki orðin alveg steikt í gegn, en aftur á móti vil ég að kartöflur og sætar kartöflur séu það. Það borgar sig bara að prófa, sérstaklega ef maður er að losa sig við afganga, þá hefði maður kannski bara hent því í ruslið hvort eð er.
4.4.2010 | 13:03
Kjúklingaréttur með kókos og mango chutney
Þessi réttur ætti að duga fyrir 2, en kannski í minnsta lagi ef þeir eru mjög svangir. Það má reyndar drýgja matinn með góðu brauði til hliðar, t.d. naan brauði. Einnig mætti vera meira af grænmeti í réttinum, en þetta var það eina sem ég átti í þetta skiptið. Þetta bragðaðist engu að síður mjög vel.
1 kjúklingabringa
soya sósa
2 1/2 dl soðin hrísgrjón
3 msk mango chutney
3 sveppir
1/4 rauð paprika
1 dl kókosmjólk
1-2 msk rjómaostur
1 tsk svartur pipar
1 tsk tandoori krydd
1 tsk hvítlaukspipar
olía til steikingar og á kjúklinginn
ostur, rifinn eða sneiðar
Bringan skorin í bita og steikt við góðan hita á pönnu upp úr olíu, tandoori kryddi stráð yfir kjúklinginn og góðri slettu af soya sósu. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er sveppunum og paprikunni hent út á pönnuna. Kryddað með svörtum pipar og hvítlaukspipar. Mango chutney er hrært saman við, þá kókosmjólkinni og að lokum er rjómaosturinn bræddur saman við. Ath. lækka hitann niður í miðlungs eða lágan hita áður en osturinn er settur út í. Að lokum er soðnum hrísgrjónum bætt út í og svo sett í eldfast mót. Ostur yfir og hitað í ofni við 200°C þar til ostur er gullinn.
Það má nota hvers kyns hrísgrjón í þennan rétt. Ég átti til í ísskápnum hjá mér hrísgrjón með spínati, það er uppskrift frá Rachael Ray, sem má finna hér.
Ég breytti henni lítillega eftir því hvað til var heima hjá mér. Ég hrærði wasabi saman við í stað jalapeno, en það kom ekki nægilega mikið bragð af því. Ég hrærði því saman við vatnið áður en grjónin fóru ofan í, en hefði verið bragðmeira ef ég hefði sett wasabi-ið út í þegar vatnið hafði minnkað aðeins í pottinum. Það var samt fínt að wasabi bragðið hafi verið dauft með kjúklingaréttinum, annars hefði það etv. yfirgnæft mango og tandoori bragðið, hefði kannski ekki passað eins vel saman heldur. Ath. þetta er mjög mikið magn af soðnum grjónum, en gott að eiga tilbúin grjón í ísskápnum og hægt að nota með ýmsum mat. Ég notaði þau t.d. líka með túnfiskgumsi sem ég græjaði á pönnu (túnfiskur, eggjahræra, grænmeti og furuhnetur)
Svona gerði ég grjónin eftir mínu höfði:
1 l vatn
1 grænmetiskraftsteningur
1 tsk wasabi paste hrært saman við vatnið
400 g hrísgrjón
ca. 1/3 stór poki af spínati
Vatn sett í pott með grænmetiskraftinum og wasabi paste. 1 dl af soðinu tekinn frá og geymdur. Hrísgrjónin ristuð á pönnu með smá olíu, þar til það kemur hnetukennd lykt af þeim. Hrísgrjón sett út í vatnið, hiti lækkaður og lok sett yfir. Spínat og 1 dl soð sett í mixara og gert að mauki. Þegar grjónin eru að verða soðin er spínatmaukinu hrært út í pottinn og látið sjóða með.
Verði ykkur að góðu!
29.3.2010 | 17:50
Einfaldur lax með spínati, furuhnetum og mango chutney
Þessi uppskrift er passleg fyrir 2. Við Linda systur snæddum þetta á sl. laugardagskvöld með hvítvíni, það rann afar ljúft niður með þessari dýrindis máltíð.
1 flak ferskur lax, 350-400 g
salt og svartur pipar eftir smekk
1/4 - 1/2 dl soya sósa
1/2 - 1 dl matarolía (mjög gott að nota olíu með sítrónu í)
1/2 lime eða sítróna (eða bara sítrónusafi úr svona flösku, þá u.þ.b. 1/4 dl giska ég á)
4-6 handfylli spínat
1-2 dl furuhnetur
1-2 dl Mild Mango Chutney
Olíu og soya sósu hrært saman og hellt yfir laxinn. Lime/sítrónusafi kreist yfir laxinn og salt og pipar stráð yfir. Flak skorið þversum í 2-3 cm breið stykki. Steikt á pönnu eða grillað þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Ég notaði grillpönnu sem er snilldaruppfinning, maturinn verður svo girnilegur með grillrákunum í.
Spínat og furuhnetur sett á disk, steiktu flökin svo sett þar ofan á og að lokum mango chutney. Afskaplega einfalt og lítið uppvask.
Gæti verið gott að hafa snittubrauð með, en mottóið var að borða fremur létta og holla máltíð að þessu sinni og við systur vorum þó vel saddar eftir laxinn.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2010 | 19:17
Hakkréttur
Þessi réttur dugar fyrir 4-6 fullorðna. Við vorum 4 konur sem borðuðum þetta, fengum okkur vel og það var afgangur fyrir mig og Lindu systur daginn eftir og við gátum fengið okkur 2svar á diskinn. Hins vegar ef svangir karlmenn eru annars vegar, er þessi tala frekar 4 en 6.
500-600 g hakk (ég kaupi yfirleitt sparhakk í Bónus, mjög ódýrt og bara í fína lagi með það)
4-5 sveppir
1/2 paprika rauð (eða annar litur, skiptir ekki öllu)
3 konfekttómatar (eða 2 venjulegir)
2 geirar hvítlaukur (eða hálfur heill, ég notaði svoleiðis, fást í litlum körfum í sumum búðum, sætari á bragðið en hinn hefðbundni)
1 lítil dós maísbaunir (eða hálf stærri)
1 og 1/2 bolli hrísgrjón (ég notaði blöndu af venjulegum og villihrísgrjónum, mjög gott)
1-2 msk sweet chilli sósa
1/2 pakki fajitas duft (eða taco)
1-2 msk pestó rautt
1 msk tómatpúrra
2 og 1/2 - 3 bollar vatn fyrir hrísgrjónin
ca. 1 bolli vatn á hakkið (eða eitthvað svoleiðis, kannski minna, kannski meira)
Rifinn eða sneiddur ostur (má sleppa)
Hrísgrjón sett í suðu, etv. með hálfum tening af grænmetiskrafti. Hakk steikt á pönnu. Því næst er hvítlaukur pressaður, saxaður smátt eða raspaður með rifjárni út á. Svo er allt hitt grænmetið, sósurnar og kryddið sett út í. Þegar bæði hrísgrjónin og hakkið er tilbúið er þetta annað hvort sett þannig á borðið, eða eins og ég gerði, hrært saman og sett í eldfast mót með osti yfir, þar til osturinn er gullin að lit. Etv. paprikudufti stráð yfir, það er svo girnilegt þannig.
Verði ykkur að góðu.
8.3.2010 | 19:11
Baunaréttur
Einn fínn gumsréttur fyrir 2-3
1 bolli hrísgrjón (í þetta skiptið notaði ég blöndu af hvítum, hýðis- og villihrísgrjónum)
1/2 teningur grænmetiskraftur
sætar kartöflur, ca. 2 dl eða botnfyllli á wok pönnunni
2 sveppir (eða fleiri, ég átti bara ekki meira)
3 sneiðar kjúklingaskinka
ca. 2-3 dl af kjúklingabaunum
lítil dós kókosmjólk
1/2 smádós tómatpúrra
hvítlaukspipar
tandoori krydd
timían
ca. dl furuhnetur
1-2 msk sweet chilli sósa
Byrjað á að setja hrísgrjónin í pott, það er passlegt að setja 2 og 1/2 eða 3 bolla af vatni á móti einum bolla af grjónum. Krafturinn settur í vatnið og leystur upp, svo grjónin. Soðið eins og pakkning segir til um. Ath. það þarf meira vatn eftir því sem suðutíminn er lengri.
Sætar kartöflur skornar í frekar litla bita og steiktar á pönnu. Þegar þær eru að verða steiktar í gegn er hinu gumsinu hent saman við, fyrst sveppum og baunum og svo hinu. Kryddað eftir smekk, byrja rólega og smakka til.
Þegar grjónin eru soðin er þeim hrært saman við gumsið og borið fram. E.t.v. er gott að hafa naan brauð eða annað gott með, en ég borðaði þetta bara án meðlætis.
18.2.2010 | 20:39
Kjúklingasúpa
Sonur minn fullyrti að hann hefði borðað soðna gulrót og þótt það gott. Ég tók hann á orðinu og sagðist myndu útbúa kjúklingasúpu með gulrótum í. Hann vildi ekki restina af grænmetinu sem fór í súpuna, svo ég sauð allt grænmetið nema gulræturnar í soðvatninu í um 10 mín eða svo, þá síaði ég það og hellti soðinu aftur í pottinn. Þá bætti ég við gulrótunum og restinni af innihaldinu. Þegar súpan var til tók ég nokkrar ausur og setti í sérskál fyrir hann. Þá hellti ég gumsinu sem ég hafði síað frá áður út í pottinn og við systur átum súpuna með öllu gumsinu. Þetta var dálítið bras, ég viðurkenni það, en vel þess virði. Guttinn bragðaði á gulrót (fannst hún reyndar vond þegar upp var staðið) og allir voru sáttir. Hér er uppskriftin:
1l vatn
grænmetis eða kjúklingateningur, eða annar kraftur
1 sellerístöngull
1-3 hvítlauksgeirar/hálfur heill hvítlaukur (fæst í litlum körfum í matvörubúðum, aðeins sætari en hinn venjulegi)
1/2 blaðlaukur (eða annar laukur)
4-5 sveppir
grænmetisteningur eða annar kraftur
4 gulrætur
Grænmetið skorið og þetta er látið malla í einhvern tíma, allavega 10 mín ef ekki meira.
4 kjúklingabringur
Kjúklingurinn skorinn niður og steiktur á pönnu. Svo settur út í súpuna.
2 msk hveiti
2 msk smjör
Smjör brætt í potti og hveitinu hrært saman við. Hrært svo saman við soðið.
1/2 l mjólk (má jafnvel setja meira, súpan var frekar þykk)
1/2l rjómi/matreiðslurjómi
Tandoori
svartur pipar
sletta af sweet chilli sósu (eftir smekk)
sletta af soya sósu (má sleppa, þetta er alveg nógu salt fyrir)
lítil dós tómatpúrra
núðlur t.d. Rice noodles (brotnar niður fremur smátt) nú eða eitthvað pasta bara
Restinni bætt út, magn fer eftir smekk, smakkið ykkur bara áfram.
Upplagt að snæða svona súpur með góðum bollum, nú eða eins og ég gerði; brauðsneiðar með miklu smjöri og jurtasalti hent í grillið í ofninum...sjúklega gott, látið ÞYKKT lag af smjöri og stráið svo Herbamare yfir, leyfið því að grillast vel í ofninum.
Ég hugsa að það gæti verið gott að sleppa rjómanum og setja í staðinn kókosmjólk. Svo mætti sleppa núðlunum og frekar setja kartöflur eða sætar kartöflur með í súpuna. Einnig væri gott að kaupa svona hakkaða tómata og nota með og hafa þetta meira svona tómatsúpu, sleppa því að baka upp súpuna með hveiti og smjöri. Svona er hægt að leika sér áfram með sama grunninn. Vona að einhverjir njóti góðs af þessari uppskrift, verði ykkur að góðu!
3.7.2009 | 00:24
Fiskur og grísk jógúrt í eftirrétt
Fiskur með tómatkókossósu og hrísgrjónum
2 flök ýsa (eða annar hvítur fiskur)
Marinering:
2-3 dl matarolía
2-3 msk soya sósa (mæli með Kikkoman)
salt og pipar
lime-börkur (smávegis rifið rifjárni, ca. 1 msk)
skvetta af lime-safa (ca. 1/2 dl)
50 g smjör til steikingar
Sósa:
1 dós hakkaðir tómatar (ég notaði með papriku og basiliku, úr Nettó)
1 lítil dós kókosmjólk (eða hálf stór dós)
1 askja hvítlauksrjómaostur með graslauk (fæst frá Ostahúsinu og Bónus)
½ paprika
4-5 kartöflur
svartur pipar
2-3 tsk tandoori krydd (fæst t.d. frá Pottagöldrum)
salt
2-3 tsk lárviðarlaufsduft og 2-3 tsk salvíuduft (eða bara eitthvað svona ítalskt grænt krydd)
Aðferð:
Ofninn hitaður í 200°C. Kartöflur afhýddar og sneiddar í fremur þunnar sneiðar, ég notaði rifjárn. Þær eru svo skolaðar úr köldu vatni og þeim raðað í eldfast mót. Papriku og blaðlauk stráð ofan á. Tómatarnir, kókosmjólkin og rjómaosturinn hitað á pönnu eða í potti og kryddað. Síðan er því hellt í eldfasta mótið og álpappír settur yfir. Sett í ofninn og hitað í 30-45 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn.
Fiskurinn er skorinn í bita og settur í skál og marineringunni hellt yfir og hrært vel. Látið standa í smá tíma, ca. 5-10 mínútur. Hann er svo steiktur upp úr smjöri við fremur lágan hita þar til hann er eldaður í gegn.
Þetta er svo borið fram með hrísgrjónum, ég valdi blöndu af villihrísgrjónum og hýðishrísgrjónum (villihrísgrjónin eru svört) Í vatnið bætti ég við grænmetiskrafti í stað salts. Munið að athuga suðutíma á grjónunum áður en hafist er handa, því hann getur verið frá 10 mínútum upp í 45 mínútur.
Eftirréttur úr grískri jógúrt
1 dós grísk jógúrt
1-2 dl bláber
vínber
2-3 msk hunang
1 msk heslihnetusýróp (má sleppa, en gefur mjög skemmtilegt bragð)
Botn:
3-4 dl múslí (ég notaði Chrunchy frá Euroshopper, einnig má nota kex)
súkkulaðispænir (þarf ekki ef notað er súkkulaðikex)
1 dl pönnukökusýróp
smávegis vatn
Aðferð:
Múslí, súkkulaðispænir, pönnukökkusýróp og smá slettu af vatni (svo að botninn verði aðeins blautari og fastari í sér) hrært saman og sett í botn á eldföstu móti. Bláber stöppuð/kramin eða sett í matvinnsluvél og jógúrtinni blandað saman við. Heslihnetusýróp og hunangi svo hrært saman við. Þessari blöndu er svo hellt ofan á botninn. Vínber skorin í bita og sett ofan á. Þetta er svo kælt og jafnvel fryst í smátíma áður en það er borið fram.
Njótið vel!
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)