25.2.2013 | 00:59
Hnetu- og möndlukonfekt
Ég ákvað að gera smá tilraun í eldhúsinu í dag. Mig langaði að útbúa eitthvað sætt og gott í eftirrétt, því systur mínar voru að koma í mat. Þessi tilraun heppnaðist með eindæmum vel og verður þetta reglulega á boðstólum hér á heimilinu, héðan í frá. Þetta konfekt inniheldur örugglega slatta af hitaeiningum, en líka næringu. Tveir svona molar eru fullkomnir með kaffibollanum og ætti þá sykurþörfin að hverfa (a.m.k. í bili). Þetta er ekki mikið magn, en afraksturinn er eitt lítið box í frystinum, passlegt til að eiga smá nart í frystinum.
Ég myndi nú a.m.k. tvöfalda uppskriftina fyrir saumaklúbbinn.
Innihald:
50 g möndlur, með hýði
50 g cashew/kasjúhnetur, saltar eða ósaltar, þið ráðið (ég notaði saltar frá Euroshopper)
50 g suðusúkkulaði
50 g kókosolía (hægt að fá bæði í krukku og líka í svona stykkjum í mjólkurkælinum)
1/2 dl rjómi (ef þið viljið ekki rjóma hlýtur að mega nota annan vökva í staðinn, en rjómi er alveg hollur í hóflegu magni og svo er þetta líka nammi, ekki máltíð)
1 tsk vanillusykur, með vanillukornum, eða skafið innan úr einni vanillustöng
1 dl hafrar, fínir eða grófir (ég notaði fína, en mun sennilega prófa að nota grófa, þ.e. heila hafra seinna)
1 dl kókosmjöl
Aðferð:
Kókosolían er tekin úr kæli töluvert áður en hafist er handa. Ef þið eruð í tímaþröng má líka bræða hana, en ég hafði hana bara mjúka. Súkkulaði er brætt við miðlungshita í rjómanum. Athugið að það þarf mikið eftirlit svo þetta brenni ekki, hrærið því reglulega í þessu og takið af hellunni, þegar súkkulaðið er byrjað að bráðna vel. Það bráðnar svo að fullu í heitum rjómanum, eftir að potturinn hefur verið tekinn af hellunni. Allt hráefnið, nema hafrar og kókosmjöl er sett í blandara, matvinnsluvél eða maukað með töfrasprota. Ég notaði töfrasprota og það maukaðist mjög vel. Þegar allt er vel maukað, er höfrunum og kókosmjölinu hrært saman við. Þessu er svo klesst ofan í plastdall eða lítið eldfast mót og sett í frystinn. Gott er að klæða mótið með klessuplasti/plastfilmu, þá er auðveldara að ná þessu úr. Þegar þetta er orðið hart (verður hart eftir ca. 30 mín eða klukkutíma, ekki alveg viss) er hægt að skera þetta í litla munnbita og setja í lokað box og geyma áfram í frystinum, eða bera fram.
Dásamlegt alveg hreint, verði ykkur að góðu!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.