4.4.2010 | 13:03
Kjúklingaréttur með kókos og mango chutney
Þessi réttur ætti að duga fyrir 2, en kannski í minnsta lagi ef þeir eru mjög svangir. Það má reyndar drýgja matinn með góðu brauði til hliðar, t.d. naan brauði. Einnig mætti vera meira af grænmeti í réttinum, en þetta var það eina sem ég átti í þetta skiptið. Þetta bragðaðist engu að síður mjög vel.
1 kjúklingabringa
soya sósa
2 1/2 dl soðin hrísgrjón
3 msk mango chutney
3 sveppir
1/4 rauð paprika
1 dl kókosmjólk
1-2 msk rjómaostur
1 tsk svartur pipar
1 tsk tandoori krydd
1 tsk hvítlaukspipar
olía til steikingar og á kjúklinginn
ostur, rifinn eða sneiðar
Bringan skorin í bita og steikt við góðan hita á pönnu upp úr olíu, tandoori kryddi stráð yfir kjúklinginn og góðri slettu af soya sósu. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er sveppunum og paprikunni hent út á pönnuna. Kryddað með svörtum pipar og hvítlaukspipar. Mango chutney er hrært saman við, þá kókosmjólkinni og að lokum er rjómaosturinn bræddur saman við. Ath. lækka hitann niður í miðlungs eða lágan hita áður en osturinn er settur út í. Að lokum er soðnum hrísgrjónum bætt út í og svo sett í eldfast mót. Ostur yfir og hitað í ofni við 200°C þar til ostur er gullinn.
Það má nota hvers kyns hrísgrjón í þennan rétt. Ég átti til í ísskápnum hjá mér hrísgrjón með spínati, það er uppskrift frá Rachael Ray, sem má finna hér.
Ég breytti henni lítillega eftir því hvað til var heima hjá mér. Ég hrærði wasabi saman við í stað jalapeno, en það kom ekki nægilega mikið bragð af því. Ég hrærði því saman við vatnið áður en grjónin fóru ofan í, en hefði verið bragðmeira ef ég hefði sett wasabi-ið út í þegar vatnið hafði minnkað aðeins í pottinum. Það var samt fínt að wasabi bragðið hafi verið dauft með kjúklingaréttinum, annars hefði það etv. yfirgnæft mango og tandoori bragðið, hefði kannski ekki passað eins vel saman heldur. Ath. þetta er mjög mikið magn af soðnum grjónum, en gott að eiga tilbúin grjón í ísskápnum og hægt að nota með ýmsum mat. Ég notaði þau t.d. líka með túnfiskgumsi sem ég græjaði á pönnu (túnfiskur, eggjahræra, grænmeti og furuhnetur)
Svona gerði ég grjónin eftir mínu höfði:
1 l vatn
1 grænmetiskraftsteningur
1 tsk wasabi paste hrært saman við vatnið
400 g hrísgrjón
ca. 1/3 stór poki af spínati
Vatn sett í pott með grænmetiskraftinum og wasabi paste. 1 dl af soðinu tekinn frá og geymdur. Hrísgrjónin ristuð á pönnu með smá olíu, þar til það kemur hnetukennd lykt af þeim. Hrísgrjón sett út í vatnið, hiti lækkaður og lok sett yfir. Spínat og 1 dl soð sett í mixara og gert að mauki. Þegar grjónin eru að verða soðin er spínatmaukinu hrært út í pottinn og látið sjóða með.
Verði ykkur að góðu!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Hver hefur list á að borða kjöt af skepnum sem alast upp í einni kös ekki ég. Kannski ekkert vont en ég hef ekki list hef ekki lagt mér slíkt til munns síðan 1985.
Líst betur á laxa réttinn hér fyrir neðan.
Ragnar Gunnlaugsson, 4.4.2010 kl. 14:32
Já, ég man eftir einum manni í sveitinni minni sem kallaði kjúklinginn: Helv.... haughoppara og má fólk að sjálfsögðu hafa þá skoðun. Það mætti prófa að nota þessa uppskrift með fiski í stað kjúklings, ég gæti trúað að það kæmi vel út.
Halla (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 15:03
Allt í góðu Halla. Gleðilega páska.
Ragnar Gunnlaugsson, 4.4.2010 kl. 18:40
Þú mátt alveg segj amér meira frá þessari túnfiskhræru. Væri spennt að kunna hana þó hún hljómi einföld þá væri gott að vita hlutföllin og hvenær hvað fer á pönnuna ;)
Kær kveðja Kristín
Kristín Björnsdóttir (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 23:24
Heyrðu, ég finn ekki uppskrift hérna af túnfiskhræru, bara túnfisksalati. Hvar fannst þú uppskrift frá mér af svoleiðis? Ég skal henda inn uppskrift af túnfiskhræru engu að síður, ég hef oft útbúið svoleiðis.
Halla Jónsdóttir, 24.4.2010 kl. 17:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.