15.3.2010 | 19:17
Hakkréttur
Þessi réttur dugar fyrir 4-6 fullorðna. Við vorum 4 konur sem borðuðum þetta, fengum okkur vel og það var afgangur fyrir mig og Lindu systur daginn eftir og við gátum fengið okkur 2svar á diskinn. Hins vegar ef svangir karlmenn eru annars vegar, er þessi tala frekar 4 en 6.
500-600 g hakk (ég kaupi yfirleitt sparhakk í Bónus, mjög ódýrt og bara í fína lagi með það)
4-5 sveppir
1/2 paprika rauð (eða annar litur, skiptir ekki öllu)
3 konfekttómatar (eða 2 venjulegir)
2 geirar hvítlaukur (eða hálfur heill, ég notaði svoleiðis, fást í litlum körfum í sumum búðum, sætari á bragðið en hinn hefðbundni)
1 lítil dós maísbaunir (eða hálf stærri)
1 og 1/2 bolli hrísgrjón (ég notaði blöndu af venjulegum og villihrísgrjónum, mjög gott)
1-2 msk sweet chilli sósa
1/2 pakki fajitas duft (eða taco)
1-2 msk pestó rautt
1 msk tómatpúrra
2 og 1/2 - 3 bollar vatn fyrir hrísgrjónin
ca. 1 bolli vatn á hakkið (eða eitthvað svoleiðis, kannski minna, kannski meira)
Rifinn eða sneiddur ostur (má sleppa)
Hrísgrjón sett í suðu, etv. með hálfum tening af grænmetiskrafti. Hakk steikt á pönnu. Því næst er hvítlaukur pressaður, saxaður smátt eða raspaður með rifjárni út á. Svo er allt hitt grænmetið, sósurnar og kryddið sett út í. Þegar bæði hrísgrjónin og hakkið er tilbúið er þetta annað hvort sett þannig á borðið, eða eins og ég gerði, hrært saman og sett í eldfast mót með osti yfir, þar til osturinn er gullin að lit. Etv. paprikudufti stráð yfir, það er svo girnilegt þannig.
Verði ykkur að góðu.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Thakka fyrir thessa gódu uppskrift. Mig langar til thess ad vita hvad einn bolli maelir. Hve margir dl (desilítrar) eru í einum bolla nákvaemlega?
Ég hef tekid eftir thví ad gefa upp dl í uppskriftum er ekki eins algengt og ádur og er thad midur, finnst mér. Allir vita jú hvad desilítri er.
Takk.
Forvitinn (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 08:13
Uppskriftin hljómar vel!
Einn bandarískur bolli (one cup) jafngildir 2.36 dl
Árni kokkur (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 10:35
Já, ég slurka alltaf bara einhverju í minni matseld, svo það er oft erfitt fyrir mig að segja nákvæmlega til um hversu mikið magn er, en ég nota mjög oft bara svona "normal" stærð af kaffibolla, sem er greinilega tæpir 2,5 dl, samkvæmt ummælunum hér að ofan. Ég ætti kannski að mæla betur það sem ég er að elda, fyrst ég er að setja uppskriftir á netið.
Halla (IP-tala skráð) 29.3.2010 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.